
Héraðsskjalasafn Árnesinga var stofnað 15. nóvember 1985. Umdæmi safnsins er Árnessýsla og sveitarfélögin innan sýslunnar sem eru átta talsins: Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfuss.
Á aðalfundi sýslunefndar Árnessýslu 6. og 7. júní 1985 var stofnsamþykkt Héraðsskjalasafns Árnesinga samþykkt og síðan undirrituð af þjóðskjalaverði 15. nóvember 1985 sem telst formlegur stofndagur héraðsskjalasafnsins. Undirbúning að stofnun Héraðsskjalasafns Árnesinga má þó rekja aftur til vorsins 1982 þegar félag áhugamanna um héraðssögu Árnessýslu var stofnað en meginmarkmið félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni. Skjöl voru þegar farin að berast skjalasafninu og þá hafði Bæjar- og héraðsbókasafnið einnig tekið við fjölda skjalasafna.
Sumarið 1985 var Finnur Magnússon ráðinn til að fara um sýsluna til að safna skjölum, afla upplýsinga og kynna skjalasafnið. Ári seinna var Inga Lára Baldvinsdóttir ráðin til að safna skjölum en Kristinn Júlíusson sá um móttöku. Pétur M. Sigurðsson sá um reikningshald. Í lok árs 1987 var óskað eftir því að starfsemi safnsins yrði flutt í sýningarsal safnahússins við Tryggvagötu 23. Það gerðist á vormánuðum 1988. Erlingur Brynjólfsson gekk þá til liðs við skjalasafnið í hlutastöðu en Pétur og Kristinn hættu. Ekki var fastur starfsmaður við safnið á þessum tíma.
Vatnaskil urðu í rekstri skjalasafnsins árið 1990. Björn Pálsson sem tók þátt í stofnun áhugamannafélagsins, auk þess að vera fyrsti formaður stjórnar skjalasafnsins eftir að það fékk starfsleyfi, var ráðinn í hálfa stöðu sem héraðsskjalavörður. Þann 8. september 1991, á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar, flutti skjalasafnið í gamla kaupfélagshúsið sem nú hýsir bæði Bókasafn Árborgar og Ráðhús Sveitarfélagsins Árborgar. Núverandi héraðsskjalavörður er Þorsteinn Tryggvi Másson, skjalaverðir eru Guðmunda Ólafsdóttir og F. Elli Hafliðason.
Hlutverk Héraðsskjalasafns Árnesinga er í meginatriðum tvíþætt. Skjalasafninu ber að varðveita skjöl sveitarfélaga sýslunnar, bæði hinna fornu hreppa, sem voru 18, og þeirra átta sveitarfélaga sem nú eru til staðar. En sveitarfélögum og undirstofnunum þeirra ber skylda til að afhenda safninu skjalasöfn sín. Skjalasafnið hefur eftirlitsskyldu gagnvart sveitarfélögunum og vinnur náið með starfsfólki sveitarfélagana að því að gera skjalavörslu þeirra öruggari, skilvirkari og ódýrari. Þetta er stjórnsýslulegt hlutverk skjalasafnsins. Þá ber skjalasafninu að varðveita og efla þekkingu á sögu Árnessýslu. Skjalasöfn félaga, fyrirtækja og ekki síst einstaklinga varpa ljósi á ýmsa þætti í sögu sýslunnar. Skjalasafnið tekur við einkaskjalasöfnum, skráir og tryggir aðgengi almennings að skjalasöfnunum. Þetta er hið menningarlega hlutverk skjalasafnsins.
Á héraðsskjalasafninu eru fyrst og fremst skjöl sveitarfélaganna í sýslunni og undirstofnana þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 350.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Afhendingarnar frá byrjun eru tæplega 1.900 talsins. Héraðsskjalasafn Árnesinga geymir ómetanlegar heimildir um sögu héraðsins frá ofanverðri 19. öld og fram á þá 21.
Með nýjum lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 varð miðlun á safnkostinum hluti af lögbundnum verkefnum safnsins. Opnun á ljósmyndavef héraðsskjalasafnsins myndasetur.is vorið 2013 markaði tímamót. Forsagan nær aftur til haustsins 2010 þegar Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga sóttu sameiginlega um styrk frá Alþingi til að vinna að skráningu ljósmynda í skjalasöfnunum og gera þær aðgengilegar. Styrkurinn sem sótt var um, var sem svaraði til upphæðar fullra atvinnuleysisbóta auk launatengdra gjalda fyrir sex stöðugildi, tvö á hverju safni. Þá nutu söfnin fjárstyrks frá sveitarfélögum sem að þeim standa varðandi annan kostnað.
Vinna hófst þegar í byrjun árs 2011 með ráðningu starfsfólks og skipulagningu verkefnisins og héraðsskjalasöfnin gerðu með sér samstarfssamning í janúar 2011. Söfnin leituðu víða til að afla nauðsynlegra upplýsinga um viðurkennda staðla sem notaðir eru við skráningu ljósmynda, varðandi gæði skönnunar og varðveislu ljósmyndafilma til framtíðar. Undir lok árs 2011 var sótt um framhaldsstyrk til Mennta- og menningarmálaráðuneytis. Næstu fjögur ár, þ.e. 2011-2015 fékk verkefnið alls kr. 60.000.000 en upphæðinni var deilt jafnt niður á héraðsskjalasöfnin þrjú. Sveitarfélagið Árborg studdi verkefnið sérstaklega allt frá upphafi og þá studdi Menningarráð Suðurlands verkefnið frá 2011 til 2014.
Héraðsskjalasafninu innan handar frá upphafi þessa verkefnis var Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari sem fór um Suðurlandsundirlendið og víðar og ræddi við ljósmyndara og fjölskyldur ljósmyndara um mögulega afhendingu á myndum á héraðsskjalasafnið. Stærstur hluti þeirra ljósmynda sem núna eru á vefnum er tengjast heimsóknum Gunnars. Traust og tiltrú manna á verkefninu skipti miklu máli og ljóst að reynsla og þekking Gunnars skipti sköpum. Í kjölfarið afhentu Jóhann Þór Sigurbergsson, Sigurður Jónsson og Tómas Jónsson myndasöfn sín á héraðsskjalasafnið en þessi söfn eru hryggjarstykkið í ljósmyndasafninu ásamt ljósmyndasafni Ottó Eyfjörð sem var að fullu afhent 2015.
Skráning ljósmynda er samvinnuverkefni ljósmyndarana, starfsmanna skjalasafnsins og almennings. Fjölmargir einstaklingar hafa aðstoðað við skráningu með einum eða öðrum hætti og það bera að þakka. Alúð, þolinmæði og nákvæmni Tómasar Jónssonar við skráningu á myndasafni hans ber að þakka sérstaklega.
Myndasetur.is er gluggi inn í fortíðina og gefur okkur tækifæri á að skoða þróun byggðar og búsetuhátta á Suðurlandi.
Undir miðlun er að finna gjörðabækur sveitarfélaga, brunavirðingabækur, gjörðabækur og félagsblöð ungmennafélaga, gjörðabækur kvenfélaga og uppdrætti af skurðum Flóaáveitunnar svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að fletta fram og aftur, hlaða niður ljósmyndum af bókum og blöðum og prenta út. Þetta verkefni hófst á vormánuðum 2016 með styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands. Verkefnið er risavaxið og á næstu árum munu fleiri heimildir úr vörslu skjalasafnsins rata á vefinn.