
Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrásetja, varðveita og sýna muni er tengjast sögu Árnessýslu. Safnið er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga sem er byggðasamlag átta sveitarfélaga í Árnessýslu. Grunnsýning safnsins hefur verið í Húsinu á Eyrarbakka frá árinu 1995. Það sér um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og hefur umsjón með munum Þuríðarbúðar á Stokkseyri fyrir Sveitarfélagið Árborg. Byggðasafn Árnesinga er jafnframt þátttakandi í rekstri Rjómabúsins á Baugsstöðum.
Húsið á Eyrarbakka
Andlit safnsins er Húsið á Eyrarbakka. Húsið á Eyrarbakka sem byggt var árið 1765 fyrir danska einokunarkaupmenn er í hópi elstu bygginga landsins og lengi vel merkt menningarsetur þar sem erlend áhrif gættu á margvíslegan hátt.
Byggðasafn Árnesinga tók við Húsinu árið 1995 að loknum viðamiklum viðgerðum. Í Húsinu er lögð áhersla á að kynna sögu Hússins frá byggingarári til dagsins í dag.
Áfast við Húsið er viðbyggingin Assistentahúsið sem reist var árið 1881. Þar er Byggðasafn Árnesinga með sex ólíkar sýningardeildir þar sem fræðast má um vel valda þætti úr sögu héraðsins.
Aftan við Assistentahúsið er lítil bygging Eggjaskúrinn sem hýsir fugla- og eggjasafn í minningu Peter Nielsens faktors sem réði ríkjum í Húsinu á Eyrarbakka fyrir öld síðan.
Fyrir aftan Húsið eru þrjú lítil rauðmáluð útihús: Hjallur, fjárhús og fjós. Þau eru opin yfir sumartímann.
Austast á Kaupmannstúninu er Sjóminjasafnið á Eyrarbakka. Það var stofnað af Sigurði Guðjónssyni skipsstjóra á Litlu-Háeyri einkum í því skyni að bjarga síðasta áraskipinu sem smíðað var á Eyrarbakka frá eyðileggingu. Áraskipið Farsæll er í dag aðalsafngripur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka en einnig geta gestir fræðst um skipasmiðinn, mismunandi veiðiaðferðir og margvíslegt annað sem tengdist sjávarútvegi við Suðurströndina fyrr á tímum. Sjá nánar hér.
Kirkjubær
Rétt vestan við Húsið er lítið bárujárnsklætt timburhús sem heitir Kirkjubær. Húsið bar byggt árið 1920 og steinsteypt skemma norðan við var byggð árið 1934. Þar bjó almúgafólk fyrrum og frá 1983 var Kirkjubær sumarhús. Gróinn garður er kringum Kirkjubæ með fjölmörgum trjátegundum og jurtum. Byggðasafn Árnesinga keypti Kirkjubæ árið 2011 og lét gera upp. Þar var 17. júní 2016 opnuð sýningin Draumur aldamótabarnsins. Þar geta gestir sett sig í spor alþýðufólks sem stritaði daginn út og inn.